Í Áhættumati Hjartaverndar eru gerðar mælingar á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma og gert er heildstætt mat á því hverjar líkurnar séu á því að fá hjartasjúkdóm síðar á lífsleiðinni.
Val á mælingum hefur verið aðlagað að nýrri þekkingu á áhættuþáttum kransæðasjúkdóma og sykursýki og áhersla lögð á markvissa greiningu. Matið er kerfisbundið fyrir hvern einstakling. Mögulegt er að gera frekari rannsóknir svo sem áreynsluþolpróf og ómun hálsæða eftir ákveðnum vinnureglum ef ábending er fyrir hendi og er greitt sérstaklega fyrir það. Áhættureiknivél Hjartaverndar er notuð við þetta mat.
Fyrsta heimsókn: Grunnskoðun, tekur um það bil 20 mínútur. Skjólstæðingur mætir fastandi á mat og drykk. Farið verður yfir staðlaðan spurningalista. Hjúkrunarfræðingur dregur blóð til mælinga á kólesteróli, HDL góða kólesterólið og þríglyceriða brennslufitu, blóðsykri, blóðhag, söltum og kreatinin. Blóðþrýstingur er mældur, sem og hæð, þyngd og fituhlutfall líkamans og hjartalínurit tekið. Niðurstöður mælinga liggja fyrir þegar skjólstæðingur kemur í læknisskoðun í heimsókn 2.
Nánari fróðleik um blóðmælingar má fá með því að smella hér.
Önnur heimsókn: Áhættumat, tekur um það bil 20 mínútur. Viðtal við lækni sem skráir sjúkrasögu og áhættuþætti og spyr nánar út í sjúkdómseinkenni séu þau til staðar. Hann fer yfir niðurstöður mælinga og notar áhættureikni Hjartaverndar til þess að reikna líkur á kransæðasjúkdómi. Þörfin á frekari rannsóknum er metin og valmöguleikar ræddir við skjólstæðing. Meðferð er hafin ef niðurstöður mælinga gefa tilefni til.
Þegar niðurstöður áhættumats liggja fyrir er ákveðið í samráði við lækni hvort þörf er á frekari rannsóknum.
Með samnýtingu ofangreindra þátta myndast grundvöllur til að meta hvort ástæða er til enn frekari rannsókna. Fyrir áreynslupróf, hálsæðaómun, myndgreiningarannsóknir og aðrar rannsóknir sem til greina koma í framhaldi af áhættumati þarf að greiða fyrir sérstaklega samkvæmt gjaldskrá.