Hvað þýða blóðmælingar?.

5. March 2019

Heildarkólesteról
Kólesteról er blóðfita og er næringarefni sem líkaminn notar m.a í frumuhimnur. Æskilegt er að heildarkólesterólið sé undir 5 mmol/L. Neysla á ávöxtum, grænmeti, trefjaríkum mat og fiski lækkar kólesterólið en neysla á dýrafitu (mettaðri fitu) hækkar kólesterólið. Í vissum tilfellum þarf að beita lyfjameðferð til að lækka kólesterólið.
LDL kólesteról
„LDL“ eða „slæma kólesterólið“ er sá hluti kólesterólsins í blóði sem er tengdur LDL sameindinni og er á leið út til vefja líkamans. Það getur síast inn í æðavegginn, hlaðist upp og valdið æðakölkun. Æskilegt er að LDL sé undir 3 mmol/L. Sömu þættir hafa áhrif á LDL og heildarkólesterólið.
HDL kólesteról
„HDL“ eða „góða kólesterólið“ er sá hluti kólesterólsins sem tengdur er HDL sameindinni. HDL hreinsar kólesteról frá vefjum líkamans og því er verndandi að hafa það hátt. HDL er hærra hjá konum. Æskilegt er að HDL sé hærra en 1,0 mmol/L hjá körlum og 1,2 mmol/L hjá konum. HDL getur hækkað við hreyfingu, neyslu á fiskiolíum (lýsi) og megrun. HDL lækkar við reykingar.
Þríglyseríðar
Þríglýseríðar eru í raun forðafitan að ferðast í blóðinu. Æskilegt er að þríglýseríðar séu undir 1,7 mmol/L. Mataræði hefur mikil áhrif á þríglýseríða, einkum hækka þau við fituríkan mat. Gildið er hærra hjá of feitum einstaklingum en líkamleg áreynsla lækkar það. HDL kólesteról og þríglýseríð eru nátengd þannig að háir þríglýseríðar valda lágu HDL og öfugt. Háir þríglýseríðar auka hættu á sykursýki.
Blóðsykur (glúkósi)
Glúkósi er mikilvægasti orkugjafi líkamans, sérstaklega fyrir heilann. Hormón halda þéttni blóðsykurs innan þröngs ramma. Æskilegt er að fastandi blóðsykur sé undir 6,0 mmol/L. Sé hann milli 6,0 og 7,0 mmól/L er aukin hætta á sykursýki. Sé fastandi blóðsykur yfir 7,0 mmol/L er um sykursýki að ræða og við það eykst áhætta á hjarta- og æðasjúkdómum mjög mikið.
Blóðrauði (hemóglóbín)
Hemóglóbín er flutningsprótein í rauðu blóðkornunum sem bindur súrefni. Aðalhlutverk hemóglóbíns er að flytja súrefni frá lungum til vefja líkamans.
Kreatínin
Kreatínín er niðurbrotsefni úr vöðvum og mælikvarði á starfsemi nýrna.