Hvað fer fram í þolprófi?.

5. March 2019

Þolpróf eru gerð í Hjartarannsókn/Hjartavernd til að meta betur einkenni sem þátttakendur lýstu í læknisheimsókninni. Greiða þarf sérstaklega fyrir þolpróf.

Þolpróf eru gerð í Hjartarannsókn/Hjartavernd til að meta betur einkenni sem þátttakendur lýstu í læknisheimsókninni. Ef lækninn grunar að einkenni geti tengst kransæðasjúkdómi er mælt með að viðkomandi fái tíma í þolpróf. Þolpróf fer þannig fram að þátttakandinn er tengdur í hjartarit og stígur svo á þrekhjól. Hjólið er þyngt smá saman þar til þátttakandi hættir/gefst upp eða er beðinn að hætta af lækninum. Læknir fylgist með hvort breytingar verði á hjartaritinu þegar álagið er aukið. Reynt er að ná hjartsláttarhraðanum (púlsinum) upp í ákveðið gildi. Flestir eru orðnir talsvert móðir þegar því marki er náð. Ef þrenging í kransæðum er það mikil að hún hafi áhrif á blóðflæði í kransæðinni koma oftast breytingar í hjartaritið. Það kallar á frekari rannsókn eða meðferð. Ef engar breytingar sjást og þol er gott bendir það til að ekki sé kransæðasjúkdómur sem valdi truflun á blóðflæði í kransæðunum.