Hefur hjartasjúklingum fjölgað?.

5. March 2019

Á síðastliðnum 25 árum hefur nýjum tilfellum kransæðastíflu fækkað um nálægt 50% og horfur þeirra sem fá kransæðastíflu hafa farið hratt batnandi. Rannsóknir Hjartaverndar sýna að þessi jákvæða þróun er að stórum hluta til komin vegna bættra forvarna. Reykingamönnum fækkar, blóðþrýstingmeðferð hefur batnað og aukin áhersla er á blóðfitumeðferð og hreyfingu, hollustu og lífsstílsbreytingar. Allt þetta hjálpast að til að bæta horfurnar. Það kann því að þykja mótsagnarkennt að hjartasjúklingum fjölgar sífellt, en það skýrist af því að fólk með hjartasjúkdóma lifir lengur en áður og heildarfjölda fólks með hjartasjúkdóm eykst því á hverjum tíma.

Nútíma hjartalækningar leggja mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Til þess þarf að greina þá sem eru líklegir til að þróa með sér hjartasjúkdóm. Ný greiningartækni og rétt notkun þeirra auðveldar okkur þetta mat. Nákvæmari blóðrannsóknir og myndgreiningarrannsóknir auðvelda þetta mat og leiðir til þess að fleiri greinast snemma með sjúkdóminn, áður en hann er farinn að valda skaða. Með viðeigandi meðferð má síðan hefta framrás sjúkdómsins og koma í veg fyrir áföll í framtíðinni. Þetta er fyrirbyggjandi læknisfræði sem skilar sparnaði þegar horft er til framtíðar og stuðlar að bættri heilsu. Aðferðir sem við beitum byggjast á alþjóðlega viðurkenndum leiðbeiningum og stöðlum um slíka skimun og hefur reynst vel.